Eigið fé úr engu
Rétt tæpur áratugur er nú liðinn frá birtingu síðustu ársreikninga íslensku viðskiptabankanna fyrir hrun og orðið ljóst að ekki verða flutt nein mál fyrir dómstólum sem varða reikningsskil þeirra. Enn eru eflaust skiptar skoðanir á innihaldi og framsetningu þeirra en minna um rökstudda gagnrýni. Þessir ársreikningar voru áritaðir án fyrirvara, annaðhvort af PWC eða KPMG. Álitaefnin eru mörg en hér verður tekið til umfjöllunar eitt þeirra sem aldrei reyndi á fyrir dómi en það varðar meðferð eigin hlutabréfa í reikningsskilum bankanna.
Í umræðu um hrunið á umliðnum árum hefur því verið haldið á lofti að hrunið á Íslandi hafi aðallega átt rót að rekja til atburða erlendis. Sú skoðun orkar mjög tvímælis, því gild rök styðja, eins og hér verður reynt að gera grein fyrir, að hrunið hafi fyrst og fremst verið af innlendum uppruna og eru umfangsmikil kaup á eigin bréfum stór hluti skýringarinnar.
Það hefði haft geipilega mikil og jákvæð áhrif fyrir marga notendur reikningsskila bankanna ef hin fjárhagslega frásögn af stöðu bankanna í árslok 2007 hefði verið þokkalega rétt varðandi eigin bréf, meira hefði trúlega ekki þurft til. Það er auðvitað hægt að halda því fram að þetta sé eftiráspeki en það er langt í frá svo. Í október 2007 lá fyrir að verulega var farið að hallast á til hins verra. Öllum sem að gerð reikningsskila bankanna komu mátti vera ljóst að gjaldþrot var þá þegar orðið eða yfirvofandi. Ekki þurfti annað til en farið hefði verið að gildandi lögum og reikningsskilareglum varðandi eigin bréf þá hlaut sú hætta að blasa við. Rétt bókhaldsleg meðferð eigin bréfa ein og sér hefði sagt þessa sögu og hefði dugað flestum til að forðast viðskipti við íslensku bankana.
Í hlutafélögum eru hluthafar almennt verndaðir þannig að þeir geta, að öðru jöfnu, ekki tapað nema sem nemur framlögðu hlutafé sínu. Fjármálastofnanir sýnast hafa tekið þessa vernd skrefinu lengra og verndað tiltekna hluthafa þannig að þeir gátu ekki einu sinni tapað meintu hlutafjárframlagi. Þetta átti ekki síst við æðstu stjórnendur bankanna. Endurskoðendur bankanna árituðu þetta fyrirkomulag sem hefðbundin og eðlileg viðskipti.
Það er viðurkennd regla í reikningshaldi að sölu er ekki heimilt að færa í bókhald, hvort sem selt er fastafé eða hlutafé, nema að minnsta kosti tveimur skilyrðum sé fullnægt. Annað skilyrðanna er að ábati af eignarhaldi flytjist frá seljanda til kaupanda og hitt er að áhættan af eignarhaldi færist líka til kaupanda. Fyrirtæki hafi sem sagt aðeins í bókum sínum eignir sem með þokkalegum hætti geta talist eign þeirra.
Þegar banki kaupir hlutabréf í sjálfum sér lækkar eigið fé hans í raun enda ekki verið að kaupa eign heldur er verið að breyta fjármagnsskipan viðkomandi banka. Ef banki á hlutabréf í ótengdum þriðja aðila þá getur hann vænst ávöxtunar í reiðufé af þeim bréfum í formi arðs og verðmætaaukningar við sölu. Ef banki heldur á eigin bréfum þá fæst enginn arður af þeim bréfum, þau eru óvirk. Það eru hluthafarnir sem eiga þessa eign í því formi að hlutur þeirra hefur vaxið hlutfallslega séð en ekki að verðmætum.
Innlend framkvæmd
Reglur um skráningu sölu voru ekki í heiðri hafðar við bókun á sölu eigin bréfa bankanna gegn skuldaviðurkenningum. Ábatinn sýnist þó hafa verið fluttur enda fengu meintir kaupendur að njóta móttekins arðs en hins vegar sýnist áhættan af kaupunum hafa í miklum mæli eða jafnvel nær eingöngu setið eftir hjá seljendunum, það er bönkunum sjálfum.
Eigin hlutabréf eru hlutir sem bankarnir eignuðust í eigin hlutafé með kaupum á markaði með greiðslu í reiðufé. Ef hlutafélag kaupir bréf í sjálfu sér þá hefur eigið fé að sjálfsögðu rýrnað og færri hluthafar draga vagninn. Hið augljósa er að bankinn lætur af hendi reiðufé sem kaupunum nemur og heildareignir bankans lækka. Eðli máls samkvæmt á ekki að greiða arð af eigin hlutabréfum í eigu bankans. Eigin hlutabréf má ekki telja til eignar og því verður að draga keypt eigin bréf frá eigin fé sem þá lækkar en í því var reikningsskilum bankanna verulega áfátt. Kaup á eigin bréfum fóru langt fram úr sölu þeirra í reynd. Það gerðist í þeim mæli að það ógnaði fjárhagslegri stöðu bankanna en reikningshaldsleg frásögn af þeirri stöðu var villandi fyrir notandann.
Hin hlið viðskiptanna með eigin bréf var sala þeirra en sú sala fór fram með ýmsum hætti, annað hvort gegn reiðufé eða með skuldarviðurkenningu í formi lána. Skuldaviðurkenningar voru þá nær eingöngu með veði í seldum hlutabréfum.
Þegar uppsöfnun eigin bréfa var orðin umtalsverð gætti sölutregðu og ekki tókst að selja bréfin gegn greiðslu í reiðufé. Bréfin voru þó eigi að síður seld en til sérvalinna viðskiptavina og starfsmanna og var söluhvatinn ábati án áhættu. Bankarnir gripu til þessa ráðs til að leyna lækkun eigin fjár sem hefði átti að koma fram í reikningsskilum. Hlutabréfin varð að selja strax aftur til að eigið fé lækkaði ekki í ásýnd. Sala gegn skuldaviðurkenningum eingöngu gat þó ekki verið rétta svarið.
Það kemur fram í ágætri umfjöllun í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis (RNA) að í árslok 2007 hafi 230 milljarðar kr. af lánum til kaupa á hlutabréfum í bönkunum sjálfum verið færð í efnahagsreikningum undir safnheitinu útlán. Nefndin tekur ekki skýra afstöðu til þess hvort flokkun lánanna meðal útlána hafi verið réttmæt en nefndinni virðist það hafa verið nokkurt álitaefni og kallar þannig fengið eigið fé veikt; nýtt hugtak og hvorki þekkt úr heimi reikningsskilafræða né fjármálafræða í þessum skilningi. Og þá kemur ekki til greina að eiginfjárframlög séu af mismunandi styrkleika með hliðsjón af almennum fyrirmælum um innborgun hlutafjár samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga og þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á að hugtakið veikt eigið fé eigi sér tilverurétt eins og RNA notar það. Þessi framsetning í reikningsskilum samrýmist alls ekki reikningshaldsreglum og lögum. Hér verður einnig að líta til 104. gr. laga um hlutafélög um bann við lánveitingu til hluthafa til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu með þeim undantekningum sem þar greinir.
Kaup bankanna á eigin bréfum voru komin vel upp fyrir 40% að mati RNA og er ástæða til að ætla að ekki sé vanmetið nema síður væri. Ákvæði 55. gr. laga um hlutafélög mælir fyrir um að 10% hlutfall sé almennt hámark kaupa á eigin bréfum. Burtséð frá lagaákvæðinu þá er almennt ekki hyggilegt að lækka eigið fé með kaupum á eigin bréfum við þröngan fjárhag og alls ekki að segja ranglega frá þeirri staðreynd í reikningsskilum hlutafélags á markaði.
Fullyrða má, ef réttar og nauðsynlegar upplýsingar hefðu verið veittar í reikningsskilum bankanna, þá hefði fyrirvaralítið orðið að engu áhugi erlendra sem innlendra lánveitenda að veita bönkunum fyrirgreiðslu. Ætla má að áhugi almennings hefði einnig dofnað snögglega ef í reikningsskilum hefði legið fyrir hve hátt hlutfall hlutafjár bankanna var óvirkt
Viðskipti með eigin bréf fóru iðulega þannig fram að bankarnir lánuðu fyrir kaupunum og þá oft í formi kúlulána með eingreiðslu og á háum krónuvöxtum. Viðskipti af þessu tagi jukust mjög tvö til þrjú síðustu árin fyrir hrunið í október 2008. Við fall bankanna námu lán vegna sölu á eigin bréfum 300 milljörðum kr. samkvæmt skýrslu RNA. Rétt fyrir hrunið fór meðal annars fram sala á eigin bréfum íslensks banka til Sheik Al Thani fyrir 26 milljarða kr. Í því máli var látið að því liggja að salan hefði leitt af sér innstreymi erlends gjaldeyris sem nokkur skortur var orðinn á en því var ekki að heilsa enda var allt andvirðið tekið að láni hjá viðkomandi banka sjálfum.
Þrjú dæmi um viðskipti með eigin bréf eru eftirfarandi:
a) Viðskiptavinur stofnar eignarhaldsfélag um kaupin með lágmarks hlutafjárframlagi og það félag kaupir eigin bréf bankans í milljarðavís og fær til þess lán fyrir öllu andvirði keyptra bréfa. Lánið var oftar en ekki kúlubréf til margra ára og veð eingöngu í hinu selda. Áhætta félagsins er engin en arður hirtur og ábatinn fylgdi þar með.
b) Bankastarfsmaður kaupir eigin bréf bankans, í tugmilljónavís, og fjármagnar í gegnum hlutafélag án persónulegrar áhættu en andvirði kaupanna gat numið margföldum árslaunum viðkomandi starfsmanns og vextir af láninu einnig margföld árslaun. Í reynd er hér um sýndarviðskipti að ræða sem þó gagnaðist starfsmanninum vel með áhyggjulausri móttöku arðs.
c) Banki keypti eigin bréf í því augnamiði að eiga fyrir nýtingu á kauprétti starfsmanns og til að verja sig þannig fyrir hækkun bréfanna. Við kaupin ætti eigið fé með réttu að hafa lækkað sem nam viðskiptunum. Svo sýnist að það hafi ekki þótt æskilegt og því verið gripið til þess bragðs að stofna skúffufélag á erlendri grund og eignarhaldið dulið. Skúffufélaginu var lánað til að kaupa þessi eigin bréf bankans sem keypt voru í vörninni.
Enginn efi er um að stjórnunaryfirráð hvíldu í reynd áfram hjá bankanum en samt var látið líta svo út að viðskipti hefðu átt sér stað við sjálfstæðan þriðja aðila þegar bankinn var í reynd að skipta við sjálfan sig. Þess vegna bar við gerð samstæðuuppgjörs að sameina þetta skúffufélag við bankann í reikningsskilum hans. Við það hefðu eigin bréfin verið færð til lækkunar eigin fé. Samstæðuuppgjör bankans var hins vegar útbúið án þess að hafa þetta skúffufélag meðtalið og þannig var eigið fé ranglega fært sem kaupverði á þessum eigin bréfum nam.
Eftir hrun en ekki fyrr mun Fjármálaeftirlitið hafa gert ítarlega rannsókn á viðskiptum með hlutabréf í bönkunum. Sú rannsókn leiddi í ljós að oft á tíðum voru bankarnir mikilvirkustu kaupendur að bréfum í bönkunum, það er í sjálfum sér. Heimilt er að kaupa eigin bréf af ýmsum ástæðum en ekki í því augnamiði einu að koma í veg fyrir eðlilega verðmyndun á bréfunum á markaði. Á þessi mál reyndi svo fyrir dómstólum og var markaðsmisnotkun staðfest.
Þegar um útlán í reglulegum rekstri er að ræða hefur banki að sjálfsögðu heimild til ákveða kjör og lengd útlána í samræmi við reglur þar um. Hið sama getur ekki gilt um kröfur vegna sölu eigin bréfa en þau varða fjármögnun banka en ekki útlánastarfsemi. Það getur ekki staðist gagnvart almennum hluthöfum sem greitt hafa fyrir sinn hlut á hlutabréfamarkaði með reiðufé, að þeir þurfi að una því að tilteknir hluthafar hafi fengið arð af hlutabréfum þótt engin greiðsla hafi frá þeim borist. Raunar sýnist mega halda því fram, eins og frá viðskiptunum var gengið að það hafi verið látið liggja milli hluta hvort lánin yrðu yfirhöfuð endurgreidd. Viðskiptahættir með útlán í reglulegum rekstri og sölu eigin bréfa geta alls ekki verið þeir sömu. Eðli máls samkvæmt ættu seinni viðskiptin nánast að vera í formi staðgreiðslu og heimildir til frests á greiðslu mjög takmarkaðar og með vitund og samþykki almennra hluthafa.
Erlend framkvæmd
Nauðsynlegt er að líta til framkvæmdar erlendis í þessu efni vegna mikillar alþjóðlegrar fjármögnunar bankanna og erlendra hluthafa þeirra. Erlendis eru lánveitingar til fjármögnunar við sölu eigin bréfa banka annað hvort óheimilar eða að hlutafé telji ekki sem hlutafé nema það hafi verið greitt með reiðufé
Erlent dótturfélag íslensks banka sætti alvarlegum athugasemdum frá erlendum eftirlitsaðila við bókaðar lánveitingar til kaupa á eigin bréfum viðkomandi banka en það var leyst með því að flytja lánin heim til Íslands. Engar athugasemdir voru gerðar af eftirlitsaðilum hérlendis svo vitað sé en gjörningurinn kallar þó á alvarlegar athugasemdir, jafnt hér sem þar.
Að sögn lögfræðinga hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC) er því þannig farið samkvæmt bandarískum reglum að hlutafé telst ekki til eigin fjár nema það hafi verið greitt með reiðufé.
Samkvæmt þeim erlendu reglum sem hér er vísað til er banka óheimilt að lána fyrir sölu á bréfum í sjálfum sér enda grefur það undan eiginfjárstyrk. Útistandandi kröfu vegna fjármögnunar eigin fjár (ekki útlán) skal færa til lækkunar á eigin fé en ekki færa sem sjálfstæðan eignalið. Hið sama gildir um útistandandi kröfu vegna óinnheimtrar frumsölu á eigin fé en þá kröfu verður að draga frá eigin fé. Þannig leiðir þessi aðferð til þess að selt hlutafé sem ekki hefur fengist greitt telur ekki sem eigið fé fyrr en við greiðslu í reiðufé eða með staðfestum verðmætum. Það er líka tónninn í íslenskum hlutafélagalögum enda þar talað skýrt um greiðslu hlutafjár.
Nánar um eðli viðskiptanna
Orðin lánveitingar og lán hér að framan hafa verið notuð þegar bankarnir seldu eigin bréf gegn skuldaviðurkenningum. Með þessháttar lánveitingum varð ekki til neitt peningamagn í venjulegum skilningi. Lánsféð eða skuldaviðurkenningar voru notuð sem gagngjald fyrir seld eigin bréf bankanna og með veði í sömu bréfum. Það er algengur misskilningur að í þessum viðskiptum hafi orðið til reiðufé enda þannig séð ein verðlaus eign látin í skiptum fyrir aðra álíka verðlausa.
Því sem hugsanlega var stofnað í hættu voru hins vegar einungis óvirk og illseljanleg eigin bréf bankanna. Þá fluttist raunverulegt eignarhald eigin bréfa í fæstum tilfellum til meints kaupanda þar sem hin verðlitlu hlutabréf voru að fullu veðsett bönkunum og því undir beinum yfirráðum þeirra og áhættan var bankanna eftir sem áður. Það lá fyrir að samkvæmt skilgreiningu að framan hafði engin sala átt sér stað og þar með var lánveitingin sýndargjörningur. Þetta varðaði lánveitingu vegna fjármögnunar bankanna en ekki hefðbundin útlán í daglegum rekstri.
Vandamálið sem leyst var með sölu eigin bréfa gegn lánveitingum var að eigið fé hefði ella að mati stjórnenda orðið að lækka vegna aukins þrýstings þar um. Það er hins vegar svo að eigin bréf sem seld voru gegn skuldarviðurkenningum eingöngu gátu ekki breytt neinu hér um. Sé gengið svo frá málum þá verður óhjákvæmilega að telja að hin seldu og veðsettu bréf sem eigin bréf. Niðurstaðan er sú að aðeins seld hlutabréf gegn greiðslu í reiðufé eða öðrum staðfestanlegum verðmætum geti talist vera hluti eigin fjár.
Kaup á eigin bréfum lutu að því að halda uppi verði á hlutabréfum bankanna. Sala keyptra eigin bréfa var nauðsynleg mótaðgerð en markaður fyrir bréfin var ekki fyrir hendi. Margar erlendar þjóðir banna lánveitingar banka til fjármögnunar á kaupum þriðja aðila í bréfum í bönkunum sjálfum. Til marks um þetta má benda á yfirlýsingu starfsmanns fjármálaeftirlitsins í Belgíu þegar upp kom mál Dexia bankans en bankinn hafði lánað stofnanafjárfestum einn og hálfan milljarð evra til kaupa á bréfum í bankanum sjálfum. Yfirlýsingin var á þá lund að samkvæmt belgískum reglum væri sjálfsfjármögnun banka bönnuð.
Svipuð yfirlýsing kom fram í fjölmiðlum í Bretlandi þegar greint var frá því að Barclays bankinn hefði verið tekinn til rannsóknar vegna meintra viðskipta bankans við Sheik Al Thani vegna fjármögnunar á kaupum hans á bréfum í bankanum. Því var haldið fram í umfjölluninni að slíkir viðskiptahættir stæðust ekki reglur þar um.
Hin umfangsmiklu kaup íslensku bankanna á eigin bréfum voru í raun yfirlýsing stjórnenda þeirra að bankarnir gætu ekki lifað af söluþrýsting á markaði. Hluthafar og lánveitendur bankanna urðu fyrir umtalsverðu tjóni eftir að reikningsskil bankanna fyrir árið 2007 voru birt en í þeim var ekki að finna neinar vísbendingar um dulda óviðunandi eiginfjárstöðu vegna eigin bréfa.
Hliðaráhrif
Það kann að þykja kaldhæðin samlíking við aðfarir Münchausen að toga sig upp á hárinu en því var í raun haldið fram að unnt væri að gera það sama með eigið fé, það er að auka það með engu. Öflun eigin fjár án þess að það sé aukið er raunar ekki í samræmi við lög meðal siðaðra þjóða. Hér á eftir fylgir tafla sem sýnir hver bókhaldslegu áhrifin eru samkvæmt fyrrgreindum þremur aðferðum:
Eigið fé bankanna var oftalið eða rangfært um 230 milljarða kr. í árslok 2007 en þessi fjárhæð, sem fengin er frá RNA, er trúlega of lág. Samkvæmt þessu þurfti að leiðrétta oftalið eigið fé bankanna um allt að 50% til lækkunar og það munar um minna.
Þetta var nógu slæmt en segir þó ekki alla söguna. Taflan hér að framan sýnir að samkvæmt erlendum reglum og eðli máls verður engin eign og enginn eignarréttur til hlutafjár til fyrr en hlutaféð hefur verið innheimt að fullu í reiðufé. Með hliðsjón af því stenst illa að færa vaxtatekjur á allt útlánasafnið eins og það var bókfært, þar með voru talin lán vegna sölu á eigin bréfum. Hér mætti tala um ekki-eign sem getur fráleitt leitt af sér vaxtatekjur í reikningshaldi. Samkvæmt þessu hefur bókfærður vaxtamunur hugsanlega verið oftalinn um milljarða króna á árinu 2007 vegna ofreiknaðra vaxtatekna á kröfur vegna fjármögnunar eigin fjár, það er sjálfsfjármögnunar. Kröfufjárhæð umfram kaupverð eigin bréfa hefði því verið rökréttast að færa á yfirverðsreikning meðal eigin fjár.
Til að loka umræðunni þá hlutu reiknaðir áfallnir vextir á ótrygg lán vegna sölu eigin bréfa í það minnsta átt að koma til skoðunar við varúðarniðurfærslu í reikningsskilum bankanna og þá ásamt höfuðstólnum. Við þá skoðun hefðu greinendur hins vegar getað átt erfiðan dag í vinnunni þar sem greining áhættu vegna þessara lána til þriðja aðila hefði þýtt úttekt á veðinu að baki, það er bankanum sjálfum. Það sýnir í raun hvert reikningsskil bankanna voru komin.
Arður
Arði verður ekki úthlutað vegna eigin bréfa enda eru þau bréf eðli máls samkvæmt ekki virk, þau eru í sameiginlegri eigu allra hluthafa sem geta lögum samkvæmt talist eigendur þeirra, ekki meintir kaupendur eða gervihluthafar. Stór hluti krafna á hendur þessum meintu kaupendum tapaðist að fullu. Gervihluthafarnir fengu eftir sem áður í einstökum tilfellum úthlutað tugum eða jafnvel hundruðum milljóna í arð. Gervihluthafarnir sem margir hverjir voru stjórnendur og starfsmenn bankanna voru boðflennur í veislunni í boði bankanna en nutu samt veitinga á við aðra og alfarið á kostnað annarra hluthafa.
Fyrir liggur að allt að 50% af hlutafé bankanna var í raun ógreitt þegar verst lét og var þar með ekki fullgilt hlutafé til að úthluta mætti arði vegna þess sem taldist vera eigin bréf bankans. Þeir sem höfðu greitt fyrir hlutabréf í bönkunum í reiðufé máttu þola það að vera hlunnfarnir um arð sem nam þessum eigin bréfum og aldrei var í raun greitt fyrir og gátu því ekki borið arð.
Innan bankanna bar lítið á gagnrýni stjórnenda þeirra enda voru þeir flestir bónusþegar af dýrara taginu.
Dómskerfið
Orðin lánveitingar og lán hafa hér að framan verið notuð um sölu bankanna á eigin bréfum gegn skuldaviðurkenningum með veði í sömu bréfum. Almennar útlánareglur geta ekki átt við um eiginfjármögnun enda að lögum um eðlisólík viðskipti að ræða. Eftir sem áður fóru fram dómsmál um eiginfjármögnun byggð á meintum brotum á lögum og reglum um almenn útlán og þannig farið blaðsíðuvillt í lögbókinni.
Samkvæmt þessu voru málin rekin á röngum grunni og mikilvægt tækifæri glataðist. En um hvað hefðu málin átt að snúast? Leggja hefði mátt eftirfarandi spurningar fyrir dómstóla um hvaðan bönkunum komu heimildir til:
- að binda umtalsvert laust fé í eigin bréfum til langs tíma?
- að selja hlutafé bankanna á kúlulánum til langs tíma?
- að taka eingöngu veð í seldum eigin bréfunum?
- að selja hlutaféð aðilum langt umfram greiðslugetu þeirra?
- að gefa kaupendum kost á útborguðum arði án þess að hafa greitt fyrir bréfin í reiðufé?
- að veita kaupendum óeðlilega lánafyrirgreiðslu án þess að bera greiðslukjör undir hluthafa?
- að láta ekki meta greiðslu fyrir hlutafé ef hún var í öðru formi en reiðufé?
- að tekjufæra vaxtatekjur af kröfum sem óheimilt er að færa til eignar?
- að meta ekki lánveitingar til mögulegrar niðurfærslu?
- að líta svo á að aðrar reglu giltu um færslu og innheimtu hlutafjár í frumsölu og eigin bréf?
- að krefjast staðgreiðslu einungis af helmingi hluthafa?
- að mismuna hluthöfum bankanna gróflega með ofangreindum viðskiptaháttum?
Eftirfarandi spurningar mætti leggja fyrir ákæruvaldið:
- má skilja það svo að ekki hafi þótt ástæða til að fá svar við ofangreindum spurningum?
- má líta svo á að ofangreind álitaefni hafi ekki þótt refsivert athæfi?
- má líta svo á að alþjóðlegar reikningsskilareglur eigi ekki við á Íslandi?
- er vernd almennra hluthafa að lögum einskis virði?
- geta starfsmenn fjármálastofnana í framtíð átt skjól í aðgerðaleysi yfirvalda nú?
Það vekur furðu og er um leið mikið áhyggjuefni hvers vegna ekki var tekið á þessum málum sem snerust í reynd um að villa notendum reikningsskila sýn um stöðu innborgaðs hlutafjár og eigin fjár bankanna. Sú villa nam að okkar dómi í árslok 2007 a.m.k. 230 milljörðum kr. sem svarar til 50% af réttu eigin fé bankanna við það tímamark en það var 465 milljarðar kr. eftir leiðréttingu á villu sem fólst í oftöldu hlutafé.
Lokaorð
Það er gömul saga og ný þegar hallar undan fæti hafa sumir stjórnendur ekki viljað una raunverulegri afkomu í reikningsskilunum og er þá bókhaldi gjarnan hagrætt til að draga upp aðra og þóknanlegri mynd. Það er líka sameiginlegt í þeim málum, þar sem til hagræðingar bókhalds hefur verið gripið, að slíku er ekki aðeins beitt á einum stað heldur er allt bókhaldið meira og minna undirlagt. Það gerðist í Enron málinu, Pharmalat málinu, Hafskipsmálinu, Worldcom málinu, BCCI málinu, Mattel málinu og svo sýnist ennfremur eiga við í tilviki íslensku bankanna 2007 en hér aðeins fjallað um einn þátt þess máls. Munurinn er þó sá að erlendis hefur verið tekið alvarlega á slíkum brotum en það á síður við hérlendis.
Höfundar greinarinnar, Jón Þ. Hilmarsson og Stefán Svavarsson, eru endurskoðendur.