Almennt
Eftirfarandi er almennt yfirlit yfir helstu atriðin sem þeir sem stunda atvinnurekstur þurfa að kunna skil á, ásamt tenglum á ítarefni. Rétt er að vekja athygli á því að í lok flestra kafla á vef ríkisskattstjóra er sérstakt ítarefni með tenglum á viðeigandi laga- og reglugerðarákvæði, eyðublöð og annað sem tengist umfjöllunarefni.
Umfjöllunin er fyrst og fremst miðuð við einstaklinga í eigin atvinnurekstri þó að vissulega eiga oftast sömu reglur við um atvinnurekstur í formi félaga. Mun víðtækari kröfur og formreglur gilda um atvinnurekstur í formi félaga og meiri kostnaður er við stofnun til slíks rekstrar.
Ríkisskattstjóri býður reglulega upp á námskeið sem eru sérstaklega ætluð þeim sem eru að hefja atvinnurekstur. Farið er yfir hagnýt atriði sem varða skattskil í rekstri. Má þar nefna skyldur launagreiðanda í staðgreiðslu, tekjuskráningu og reikningaútgáfu, rekstrarkostnað og skattframtalið. Auk þess er fjallað um virðisaukaskatt: útskatt og innskatt, skattskyldu, undanþágur, skattverð og fleira.
Verktaka
Atvinnurekandi er sá sem stundar sjálfstæða starfsemi með reglubundnum hætti að nokkru umfangi og í þeim tilgangi að hagnast. Taki hann að sér, gegn endurgjaldi, að vinna eða annast um tiltekið verk fyrir annan aðila, verkkaupa, og ábyrgist árangur verksins telst hann verktaki. Verktakar geta bæði verið félög og menn. Atvinnurekandi (verktaki) sem hefur fólk í vinnu (starfsmenn/launamenn) kallast einnig vinnuveitandi og ber tilteknar skyldur sem slíkur eins og nánar er rakið hér á eftir.
Ekki eru alltaf skýr mörk á milli þess hverjir teljast vera launamenn og hverjir verktakar. Hjá einstaklingi sem vinnur aðeins fyrir einn eða fáa ræðst það af eðli starfssambandsins við þann sem unnið er fyrir hvort hann telst vera verktaki eða starfsmaður/launamaður. Ríkisskattstjóri getur skorið úr um það í skattalegu tilliti. Þannig getur ríkisskattstjóri til dæmis hafnað umsókn um virðisaukaskattsnúmer með vísan til þess að umsækjandi teljist starfsmaður þrátt fyrir samning um verktakagreiðslur. Einnig getur hann metið starfssambandið eftir á og fært skattskil úr skilum rekstraraðila í skil launamanns með tilheyrandi endurákvörðun skatta auk viðurlaga.
Munurinn á verktaka og starfsmanni/launamanni
Gerviverktaka
Skattar manna í einstaklingsrekstri
Rekstrarkostnaður
Tilkynningar til ríkisskattstjóra
Áður en rekstur hefst þarf að tilkynna um reksturinn til ríkisskattstjóra óháð því hvort hann er rekinn í félagi eða á kennitölu einstaklings (einstaklingsrekstur). Einnig þarf að tilkynna breytingar á rekstrinum eftir því sem við á sem og lok rekstrar.
Áður en rekstur hefst
Á meðan á rekstri stendur
Í lok rekstrar
Haldið utan um fjármálin í rekstrinum
Færa skal bókhald reglulega og í samræmi við ákvæði laga um bókhald og virðisaukaskatt. Halda verður utan um allar upplýsingar um tekjur og gjöld. Tekjur skulu skráðar jafnóðum og þær verða til. Gefa skal út sölureikning við sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu þó greiðsla hafi ekki borist eða skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram. Fullfrágengið og fullnægjandi bókhald skal liggja til grundvallar framtalsskilum.
Eftir lok rekstrarárs eiga félög að útbúa og skila ársreikningi á grundvelli bókhaldsins. Einstaklingar þurfa að skila ársreikningum ásamt sérstöku rekstrarframtali með skattframtali sínu ef velta rekstrarársins fer yfir 20.000.000 kr.
Nánar um bókhald og tekjuskráningu
Hnappurinn (eingöngu fyrir örfélög)
Gagna- og framtalsskil og greiðsla skatts
Á yfirstandandi rekstrarári ber þeim sem stunda atvinnurekstur að standa skil á ýmsum sköttum og gjöldum. Sem dæmi má nefna virðisaukaskatt, staðgreiðslu skatts (útsvars- og tekjuskatts) og staðgreiðslu tryggingagjalds af launum og reiknuðum launum (reiknuðu endurgjaldi) og staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslna. Misjafnt er eftir tegund og umfangi starfsemi hverju á að skila og hversu oft.
Að liðnu rekstrarári ber að skila inn tilteknum gögnum vegna framtalsgerðar. Reksturinn er gerður upp með skilum á sérstakri rekstrarskýrslu með persónuframtali þeirra sem eru í einstaklingsrekstri og skattframtali lögaðila ef starfsemin er rekin í félagi.