Menu Close

Bókhald og tekjuskráning

Þeir sem hafa með höndum atvinnurekstur þurfa að færa bókhald, hvert sem formið á rekstrinum er. Bókhaldi skal hagað í samræmi við lög um bókhald og lög um virðisaukaskatt, þar sem það á við. Sérhver færsla í bókhaldi skal byggð á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum sem rekja má til viðskiptanna. Skrá skal viðskipti í bókhaldið jafnskjótt og þau fara fram. Færslur í bókhaldi eiga að vera í skipulegri númeraröð og endurspegla rétta tímaröð viðskiptanna og annarra færslutilefna. Fylgiskjöl með bókhaldi á að geyma í samfelldri töluröð og til þeirra vísa við innfærslu í bókhaldsbækur. Til fylgiskjala teljast til dæmis afrit útgefinna sölureikninga og frumrit innkaupareikninga.

Tekjuskráning

Skylt er að skrá tekjur jafnóðum og þær verða til. Meginreglan er sú að gefa skal út sölureikning við sérhverja afhendingu eða skrá söluna í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram. Sölureikningar eiga að vera fyrirfram tölusettir og má sama fyrirfram áprentaða númerið ekki nota oftar en einu sinni á ári. Að öllu jöfnu á að nota sömu tekjuskráningaraðferð við skráningu á allri sölu. Þannig eiga rekstraraðilar annað hvort að nota sölureikninga eða sjóðvél. Þeir sem skrá tekjur sínar í sjóðvél eiga þó jafnhliða innstimplun í sjóðvél að gefa út sölureikning til virðisaukaskattsskylds viðskiptavinar sem þess óskar. Þá þarf að hefta greiðslukvittun sjóðvélar við reikninginn.

Geymsluskylda

Geyma á bókhaldsbækur, fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn, þar með talin gögn sem varðveitt eru á tölvutæku formi, á tryggan og öruggan hátt í minnst sjö ár frá lokum reikningsárs. Þeim sem nota sjóðvélar er þó ekki skylt að varðveita innri strimla lengur en þrjú ár frá lokum reikningsárs, enda liggi fyrir fullfrágengið bókhald og undirritaður ársreikningur. Það athugist að það getur þurft að geyma vissan hluta bókhalds vegna virðisaukaskatts lengur en í sjö ár.

Framtals- og skýrsluskil

Fullfrágengið og fullnægjandi bókhald þarf að liggja til grundvallar framtals- og skýrsluskilum. Skattyfirvöld geta hvenær sem er kallað inn bókhaldið og gögn þess til skoðunar. Ef það er ófullnægjandi ber ríkisskattstjóra að áætla skatta og beita viðurlögum. Fáist bókhald ekki afhent eða ef bókhald hefur ekki verið fært ber að vísa máli til Skattrannsóknarstjóra eða Ríkislögreglustjóra.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?