Launagreiðendaskrá
Þeir sem hefja atvinnurekstur skulu tilkynna um það til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra eigi síðar en 8 dögum áður en starfsemi hefst. Launagreiðendum er skylt að halda eftir staðgreiðslu af tekjum launamanna og af reiknuðum eigin launum og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi.
Við útborgun launa skulu launagreiðendur halda eftir staðgreiðslu og skila til innheimtumanns ásamt tryggingagjaldi. Á það bæði við um greidd laun og um reiknuð laun manns við eigin atvinnurekstur. Launatímabil er að hámarki einn mánuður. Gjalddagi er 1. dagur næsta mánaðar á eftir launamánuði og eindagi 15. hvers mánaðar.
Einstaklingar með rekstur á eigin kennitölu reikna sér laun eftir sérstökum reglum um reiknað endurgjald og skila staðgreiðslu af því. Vinni maki við reksturinn er honum einnig reiknað endurgjald og staðgreiðslu af því skilað á sama hátt og staðgreiðslu launamanna. Við upphaf starfsemi skal áætla reiknað endurgjald á eyðublaði RSK 5.02 og skila því til ríkisskattstjóra.
Ef umfang rekstrarins er svo óverulegt að reiknaða endurgjaldið er lægra en 450.000 kr. á ári þarf ekki að skila staðgreiðslu. Heldur ekki af reiknuðu endurgjaldi barna launagreiðandans sem vinna við reksturinn. Þessi laun eru aðeins talin fram á skattframtali og launaframtali. Tekjuskattur og útsvar leggjast á við álagningu, eins og tryggingagjald sem lagt er á samkvæmt launaframtali.
Séu launagreiðslur og reiknað endurgjald samanlagt ekki umfram 504.000 kr. á ári er staðgreiðslu og tryggingagjaldi aðeins skilað einu sinni á ári. Sjá nánar um greiðslutímabil á síðunni Tryggingagjald.
Mikilvægt er að skila staðgreiðslu á réttum tíma svo ekki komi til beitingar álags og dráttarvaxta. Einnig er mikilvægt að skila skilagrein þó að launagreiðslur liggi niðri tímabundið (x-að í viðeigandi reit) því annars er ríkisskattstjóra skylt að áætla staðgreiðsluna.
Rafræn skil
Ríkisskattstjóri leggur ríka áherslu á rafræn skil, þ.m.t. að launagreiðendur skili afdreginni staðgreiðslu og tryggingagjaldi rafrænt. Sjá umfjöllun um staðgreiðslu í kaflanum Rafræn skil. Flest launakerfi bjóða upp á rafræn skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi með sendingu beint úr launakerfi.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Eyðublöð
Orðsendingar og leiðbeiningar